Hægri kanturinn


Kampavíns-komminn
tekur ofan fyrir Vigdísi Hauksdóttur, leiðtoga hreyfingarinnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrir að birta þjóðinni með skýrum hætti þá þekkingu á Evrópumálum sem liggur til grundvallar heimssýn samtakanna og afstöðu. Sérstaka athygli vakti þekking þingmannsins og leiðtoga á stöðu eins af þeim aðildarríkjum sem Íslendingar hafa ekki síst litið til þegar kostir og gallar aðildar fyrir litla eyþjóð eru vegnir og metnir.

 

Hópefli á facebook

 

Höfundar greina

Leit
  • A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    by John Rawls
  • Capital in the Twenty-First Century
    Capital in the Twenty-First Century
    by Thomas Piketty
fimmtudagur
feb.192015

Hlutverk ríkisins á víðsjárverðum tímum

Á aðventunni er tilvalið að huga að stoðum og undirstöðu samfélagsins. Í þessum pistli mun ég fara stuttlega yfir hugmyndir um hlutverk ríkisins almennt sérstaklega í ljósi háværra krafna þjóðarinnar til ýmissa mögulegra og ómögulegra athafna,  en varla má finna staðfastan samnefnara þessar krafna í íslenskri opinberri umræðu. Flest krefjumst við þó lýðræðis, gagnsærra stjórnarhátta, heiðarleika í viðskiptum, aukinna mannréttinda, og þar fram eftir götunum og hefur ákall um framangreint risið hátt eftir fjármálahrun samfara því að við höfum púað á sérhagsmunapot fárra. Á þriggja ára afmæli kreppunnar og í ljósi stöðu íslensks samfélagsins er því ágætt að hugleiða grunninn: Af hverju við höfum undirgengist núverandi samfélagsskipulag? Hvert á hlutverk ríkisins að vera? Hvað þýða hugtök eins og aukið lýðræði, mannréttindi og gegnsæir stjórnarhættir og hver er fórnarkostnaðurinn? Og síðast en ekki síst, hvert er hlutverk okkar sem tannhjól samfélagsins að láta kröfurnar um betra samfélag verða að veruleika?

Allt vald kemur frá þjóðinni

Í grunninn er það svo að allt vald kemur frá þjóðinni, sem er undirstaða lýðræðis. Sú staðreynd er nú viðurkennd í vestrænum löndum og hefur þróast frá einvaldinu eftir lýðræðisbyltinguna sem hófst í Frakklandi er leiddi til setningu stjórnarskrár þar í landi árið 1789.  En hvað þýðir það að allt vald komi frá þjóðinni? Í stórum dráttum þýðir það að við, kjósendur, þjóðin, almenningur – eða hvaða heildaryfirheiti sem við viljum nota, eigum að ákveða hvaða samfélagsskipulag við viljum búa við. Slíkt kallast jafnan samfélagssáttmáli heildarinnar, og er í dag betur þekkt sem stjórnarskrá í lögfræðilegu tilliti en samfélagssáttmálinn er kannski óhlutbundnari og óræðinn í grunninn. Í núverandi stjórnskipulagi felum við með samþykkt stjórnarskrár ákveðnu fulltrúalýðræði að fara með vald í umboði okkar.  Í stjórnarskrá er því byggt upp stjórnskipulag þar sem ákveðið er hvaða stofnanir fari með hvaða vald, þar er reynt að koma í veg fyrir að þeir aðilar er fari með vald misnoti það og hverjar séu afleiðingar  þess er kemur til misbeitingar.

Margt í ofangreindu ber að skoða vel. Nefnilega það að þjóðin, ef hún nær að vera sammála um ákveðin grunnmarkmið, ákveður og mótar grunnþætti samfélagsins og öll afleidd kerfi sem það byggir á t.d. löggjöfina. Þjóðin, fólkið –  ákveður strúktúrinn og að undangegnu ferli gengst undir samfélagssáttmála og viðurkennir því t.a.m. valdbeitingu lögreglu meðal annars af þeirri ástæðu að almenningur hefur játað að heildarhagsmunir séu að því að menn drepi ekki, fremji ekki rán, hóti og etc. Þá játar hún einnig að Alþingi sé löggjafarsamkundan sem móti með löggjöf hvernig samfélagskerfið skuli uppbyggt og umleið játar viljayfirlýsingu um að fara eftir þeirri löggjöf. Það er þó hægara sagt en gert að fá meirihlutann til að sammælast um samfélagssáttmálann, enda virðast menn vera ósammála um hvaða áherslur hann skuli byggja á. Menn virðast nefnilega krefjast lýðræðis en jafnframt misskilja  í hverju lýðræðið er fólgið. Í lýðræðisríki er það ekki svo að hver og einn fær sínum kröfum fullkomnlega framgengt, þó hann eða hópur ákveðinna manna telji sig vita betur. Að fylgja lýðræðislegum kröfum,  þýðir að fallast á málamiðlun og ná sátt milli manna í kjölfar samræðunnar.

Í dag höfum við öll hér í landi undirgengist þennan sáttmála de facto. Lykilatriði til að ró sé um samfélagssáttmálann er að öll líffæri hans eða stofnanir virki og gegni sínu hlutverki. Sú ró fæst ekki bara með mekaník stofnana heldur líka að lágmarks efnislegu inntaki sé náð. Þannig nái lögreglan árangri í réttarvörslu, dómkerfið sé í grunninn skilvirkt og réttlátt, framkvæmdarvaldið framkvæmi og framfylgi skipunum löggjafans í gegnum lög o.s.frv. Oftar en ekki eru menn missammála um hvort stofnanir sinni sínu hlutverki eður ei, enda skoðanir manna mismunandi og margar. Samfélagssáttmáli þessi grundvallast hins vegar á skilvirkni og umfram allt jafnvægi samfélagsins. Við játum (og göngumst undir ef svo má að orði komast) ákveðið kerfi að því gefnu að það þjóni heildarhagsmunum og að lokum okkar eigin hagsmunum, nefnilega að það sé betra að samfélagið sé fyrirsjáanlegt hvað varðar orsök og afleiðingu ríkisvalds og það ríki stöðugleiki. Þessir eiginleikar eru meðal annarra taldir einkenna ríki sem teljast uppfylla skilyrði svokallaða réttarríkisins -   sem að mínu mati hefur þróast með ægilega formlegum hætti hér á landi. Þegar framlíða stundir þá hefur hugmyndafræði ákveðinna hópa áhrif á framþróun þessa kerfis, aðallega hugmyndir stjórnmálaflokka. Í grunninn er stjórnmálaflokkur ekkert annað en hópur fólks  sem hefur svipaða sýn um á hvaða hugmyndafræðilega grunni beri að reka samfélagið og sem slíkir hópar þar sem menn safnast saman með svipaðar skoðanir eru flokkar mjög mikilvægir lýðræðinu, hvaða nafni sem þeir kallast, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

 

Flóknari uppbygging valds - auðvald

John Locke var stjórnmálaheimspekingur og mikill einkaeignarréttarsinni. Locke skrifaði um samfélagssáttmálann í Ritgerð um ríkisvald frá árinu 1689. Öll skrif þarf að skoða í því sögulega samhengi sem þau koma fram í, en á þessum tíma var vald hins opinbera mestmegnis í höndum konunga sem þáðu vald sitt frá guði. Yfirvaldið var á þeim tíma nánast undantekningarlaust samnefnari auðs.  Locke fjallaði um að ríkið væri reist á þegjandi samkomulagi milli borgaranna, sem nefnt er samfélagssáttmáli, en þegar valdhafar ryfu þetta samkomulag og virtu lítils eða einskis réttindi borgaranna, væri það réttur þeirra að rísa upp og hrinda þeim af höndum sér.

 

En af hverju skiptir þetta máli í dag? Nú þremur árum eftir fjármálahrun er ljóst að miklar kröfur eru lagðar á stjórnvöld að búa til nýtt samfélagskerfi sem heftir markaðsfrjálshyggju þ.e. að koma í veg fyrir að sama komi fyrir aftur, að markaðurinn hlaupi frjáls og eftirlitslaus með hörmulegum afleiðingum fyrir nánast allan heiminn, þó hann hafi í litlu mæli komið nálægt því. Þá er gerð krafa um að opinberir aðilar beri ábyrgð, sem kristallast í hruninu en er hluti af lengri sögu um tilvist ábyrgðarleysis í opinberu stjórnkerfi. Samfélagið hefur hins vegar breyst frá þeim tíma er Locke skrifað sína ritgerð, en auk valdhafans ríkisins sem oft var samnefnari auðs, er kominn nýr valdaaðili sem er ekki skrifaður í samfélagssáttmálann en hann nefnist raunar auðvald eða auðræði. Frjáls markaður hefur byggt upp fyrirtæki á slíkri stærðargráðu að virði þeirra er margfalt á við landsframleiðslu margra ríkja. Krafan á stjórnvöld er allskonar og fjölbrotin  í kringum þennan valdhafa: setja lög er skerða hans athafnafrelsi, útrásarvíkingar verði settir í fangelsi og stillt verði af skuldavandamál heimilana gagnvart kröfuhöfum o.s.frv. Krafan er í grunninn sú sama að samfélagskerfið sinni sínum hlutverkum og að þeir sem standa efstir í auðvaldspýramídanaum starfi undir hatti samfélagssáttmálans eins og aðrir. Þá séu ekki sumir sem græði á neyð annarra og aðhaldsaðgerða ríkisins. Allir sem vilja finna fyrir ákveðinni óreiðu í samfélaginu sem birtist einna helst í því að jafnvægi milli hópa hefur raskast of mikið og fólk er pirrað yfir því að ekki þurfi allir að fara eftir reglum þess kerfis sem þeir telja alla hafa gengist undir. Krafan er einfaldlega sú að jafnvæginu sé viðhaldið. Þessar kröfur eru bæði eðlilegar og sjálfsagðar, og svo fremi að gætt sé að réttarríkinu, ber okkur að halda þeim til haga fullum fetum.

 

Hlutverk ríkisins er í okkar höndum

Að þessu sögðu er mikilvægt að hafa í huga að hlutverk ríkisins er á hverjum tíma ekkert annað en það sem við ákveðum hverju sinni í okkar samfélagssáttmála. Ef meirihluti heimsins afneitar að fjármagn skuli safnast á hendur fárra aðila sem skapi ójafnvægi á milli dreifingu gæða heimsins,  þá getur heimurinn komið í veg fyrir það og sama gildir um íslensku þjóðina. Ef við viljum ekki núverandi fjármálakerfi og ekki eins mikla áherslu á einkaeignarrétt á kostnað víðtækra almannahagsmuna þá ákveðum við það. Ef auðlindir eiga að vera eign almennings þá ræður þjóðin því. Ef við viljum nýjan samfélagssáttmála þá er það okkar krafa, líkt og menn neituðu spillingu konungsvalds á 18. öld, risu upp og stofnuðu lýðræðisríki. Þjóðin og fólkið er með völdin. Það er í raun alltaf okkar að segja. Við þurfum að vera að fullu meðvituð um þennan rétt. Stjórnmálamenn starfa í umboði okkar og setja þær reglur sem við viljum að allt annað dansi eftir. Þannig er það. Um þetta snýst lýðræðið og samfélagssáttmálinn. Ef við viljum getum við gefið upp á nýtt ef það er krafa meirihluta fólksins. Við þurfum bara að vera viss um hvað við viljum, að við vitum með tiltölulegri vissu hvert hlutverk ríkisins á að vera. Aukin mannréttindi auka á frelsi fólks, burt séð hvort að þær manneskjur séu siðferðislega góðar eða slæmar. Menn afneita sér ekki mannréttindum, þó við teljum að þeir hafi hagað sér ósiðlega eða jafnvel brotið lög. Þannig verður ekki hróflað við eignarréttinum í því formi sem hann er í dag og eftir því hvernig dómstólar hafa mótað hann nema með því að endurskrifa stjórnarskrána. Viljum við að ríkið aðhafist um hvaðeina, eða ætlum við að játa óheft frelsi að einhverju marki? Grunnatriði er umfram allt í því að skrifa stjórnarskrá eða samfélagssáttmála og vera sammála um breiðu línurnar.

Hrun skilur, að mínu mati, eftir sig þá staðreynd að maðurinn er í eðli sínu eigingjarn og á erfitt með að móta sér raunverulegt siðgæði, nema á það sé lögð mikil áhersla í opinberri hugmyndafræði samfélagssáttmálans. Það er aldagömul saga að þetta siðgæði mun ekki blómstra nema mönnum sé hegnt fyrir að fara ekki eftir því en ekki hampað. Augljóst er að við þyrftum ekki refsingar fyrir brot á samfélagsáttmálunum eða eftirlit með honum ef enginn myndi brjóta hann. Réttlæti er líka réttilega framtíðarhugtak, við myndum ekki tala um réttlæti ef við lifðum við það. Við megum því ekki gleyma að taka með okkur að við ráðum þessu og til að halda stöðugleikanum og gæta jafnvægis þarf að finna málamiðlun á milli hópa sem hafa mismunandi lífsdrif. Finna þarf mörk jafnvægis og setja þarf manninum aga- og siðferðisreglur sem heftir þó ekki samfélagsþróun og frjálslyndi eða eðlileg lögmáls markaðarins að einhverju marki.

Samfélagslegar skyldur

 Uppeldisáhrif athafna verða að vera á þá leið að rækta það góða í manninum. Menn deila auðvitað á um hvað það góða er, og hvort siðferði eigi að ráða af því það sé  afstætt, en það er að mati undirritaðrar fræðilega deila þeirra sem sitja í fílabeinsturnum. Við vitum í grunninn hvað er rétt og rangt í þessu lífi. Þá eigum við að spyrja hvað getum við gert til að leggja hönd á plóg, fremur en að krefjast stöðugt, í baráttunni fyrir betra samfélagi. Því þarf að hugleiða vandlega að það eru tvær hliðar á peningnum. Hvað hlutverk ríkisins er mótast í nútímasamfélagi að hluta til af því hvert eigi að vera athafnafrelsi einstaklingsins. Gengdarlausar kröfur um skyldur ríkisins, jákvæðar og neikvæðar, valda því að umsvif þess verða meiri og ríkið er ekki alltaf hin gegni og skynsami maður, ekki frekar en markaðurinn. Aukin mannréttindakrafa þýðir að ríkið hefur þrengri skorður til athafna á víðsjárverðum tímum til að þjóna almannahagsmunum. Við þurfum því fyrst að hugsa um heilbrigði og raunsæi, þegar við tölum um samspil lýðræðis og mannréttinda, en þar vega ekki síður þungt skyldur okkar sjálfra í samfélaginu til að standa okkar pligt.  Ef við krefjumst aukinna réttinda felur það jafnframt í sér auknar skyldur – sem helst í hendur. Ef við teljum okkur eiga skilið betra samfélag – þá erum við sjálf fyrsta skrefið, breyting á viðhorfum leiðir til breyttra stjórnarhátta þjóðfélagsins – og það mun ekki breytast fyrr en þá.

 

 

« Ályktun um þinglok og nýja stjórnarskrá | Main | Komdu á landsfund! »