Hægri kanturinn


Kampavíns-komminn
tekur ofan fyrir Vigdísi Hauksdóttur, leiðtoga hreyfingarinnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrir að birta þjóðinni með skýrum hætti þá þekkingu á Evrópumálum sem liggur til grundvallar heimssýn samtakanna og afstöðu. Sérstaka athygli vakti þekking þingmannsins og leiðtoga á stöðu eins af þeim aðildarríkjum sem Íslendingar hafa ekki síst litið til þegar kostir og gallar aðildar fyrir litla eyþjóð eru vegnir og metnir.

 

Hópefli á facebook

 

Höfundar greina

Leit
  • A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    A Theory of Justice: Original Edition (Oxford Paperbacks 301 301)
    by John Rawls
  • Capital in the Twenty-First Century
    Capital in the Twenty-First Century
    by Thomas Piketty
þriðjudagur
okt.232012

Réttindi í stjórnarskrá

Í aðdraganda kosninganna um nýja stjórnarskrá komu fram ýmsar athugasemdir og spurningar um efni tillagna stjórnlagaráðs. Af hægri kantinum, og úr hópi þeirra sem eru fremur bókstafstrúaðir í lögfræði, komu meðal annars fram efasemdir um tvö ný ákvæði sem varða réttindi fólks. Nánar til tekið (feitletrun mín):

23. gr. Heilbrigðisþjónusta

Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.

Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

og

25. gr. Atvinnufrelsi

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

Þetta, einkum feitletruðu atriðin, telja sumir ekki eiga heima í stjórnarskrá og spyrja hvað stjórnlagaráð sé að fara með þvílíkum tillögum og orðalagi.

Svarið við því er fremur einfalt. Orðalagið á uppruna sinn að rekja til alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966. Þennan alþjóðlega mannréttindasamning hefur Ísland fullgilt (árið 1979) og skuldbundið sig til að innleiða í landsrétt.

Í 12. gr. samningsins stendur m.a. þetta (feitletrun mín):

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. [Enska: right of everyone to the enjoyment of the highest attainable standard of physical and mental health.]

Í 7. gr. samningsins stendur m.a. þetta (feitletrun mín):

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega:
(a) endurgjald sem veitir öllum vinnandi mönnum sem lágmark:
(i) sanngjarnt kaup [enska: fair wages] og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar, og séu konum sérstaklega tryggð vinnuskilyrði sem eigi séu lakari en þau sem karlmenn njóta, og jafnt kaup fyrir jafna vinnu;
(ii) sómasamlega lífsafkomu fyrir þá sjálfa og fjölskyldur þeirra í samræmi við ákvæði samnings þessa; [...]

Við erum því skuldbundin, samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum, til að tryggja þau réttindi sem um er rætt í 23. og 25. gr. tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

En á svona lagað heima í stjórnarskrá?

Að mínu viti, já. Stjórnarskrá er samfélagssáttmáli. Hún geymir grunnlög þjóðfélagsins. Grunnlögunum er erfiðara að breyta en öðrum lögum. Þar viljum við því hafa þann ramma sem stjórnvöld og þingmeirihluti hverju sinni verður að starfa innan og getur ekki auðveldlega breytt. Við viljum ekki að nýr tilfallandi meirihluti geti gengið gegn þeim réttindum sem grunnlögin tryggja.

Samfélög hafa breyst mikið frá tíma iðnbyltingarinnar á 19. öld, en þangað eiga dönsku og íslensku stjórnarskrárnar rætur að rekja. Skilningur manna á mannréttindum og forsendum lýðræðis hefur þróast áfram og tók stökk í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Ein birtingarmynd þessa eru alþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem fjalla um svokölluð annarrar og þriðju kynslóðar mannréttindi. Sömu þróunar sjást merki meðal annars í stjórnarskrám Þýskalands og Frakklands, svo ekki sé minnst á nýlega endurskoðaðar stjórnarskrár Svíþjóðar og Finnlands.

Með öðrum orðum: Frá 19. öld hafa þær framfarir orðið að þróuð samfélög eru með skynsamlegu skipulagi fær um að tryggja víðtæk réttindi og grunnþjónustu, öllum til hagsbóta. Um það þarf ekki að deila lengur.

Ég hygg að mikill meirihluti Íslendinga vilji búa í velferðarsamfélagi þar sem gætt er mannréttinda í nútímalegasta skilningi. Það þýðir að réttur til heilbrigðisþjónustu, menntunar og til sanngjarns kaups fyrir vinnu er tryggður. Nýr meirihluti á þingi á ekki að geta numið brott þessar grunnstoðir eða veikt þær verulega - enda værum við þá að brjóta alþjóðlega mannréttindasáttmála sem við höfum sjálf undirgengist. Ef við raunverulega viljum aðra þjóðfélagsgerð í framtíðinni, til dæmis hið fyrirheitna land frjálshyggjunnar, þá þurfum við að fara alla leið og breyta stjórnarskránni til þess.

Þetta finnst mér liggja í augum uppi, en sumum íhaldssömum lagatæknum ekki. Þeir hafa þá aðra sýn en ég á tilgang stjórnarskrár og inntak mannréttinda í nútímanum. En ég er náttúrulega jafnaðarmaður - eins og flestir Íslendingar eru, inni við beinið.

« Formaður FFJ í framboð | Main | Stundum segir mynd meira en þúsund orð... »